ADHD

Uppvinnslur (greiningar)

Við bjóðum upp á fullt greiningarferli m.t.t. ADHD, að meðtöldum læknishlutanum. Ef greiningarferlið leiðir til ADHD greiningar bjóðum við upp á meðferð við röskuninni í beinu framhaldi, þ.m.t. lyfjameðferð.

Greiningarferlið byggir á teymisvinnu hjúkrunarfræðings, sálfræðings og geðlæknis. Í lok ferlisins fær skjólstæðingurinn ítarlega skýrslu með rökstuðningi á niðurstöðunni.

Ferlið hefst með skimun, sem er fyrsta kortlagning á vandanum. Ef skimunin bendir til þess að rétt sé og tímabært að fara út í fullt ADHD greiningarferli er skjólstæðingi boðið að fara þá braut.

Í byrjun er aðeins greitt fyrir skimun. Ef skimunin bendir til þess að ADHD sé vandinn býðst full uppvinnsla. Í verði uppvinnslunnar er allt ferlið, fyrir utan læknisviðtalið. Það er niðurgreitt af Sjúkratryggingum Íslands og hluti sjúklings fer eftir tryggingastöðu skjólstæðings á hverjum tíma. Greitt er fyrir læknisviðtalið þegar það fer fram.

Afar mikilvægt er að fylla út í skimunarlista (sjá hnapp hér fyrir neðan) eftir skráningu í skimun. Skjólstæðingur fer ekki á biðlista eftir skimunarviðtali fyrr en öll gögn hafa borist.

Vinsamlegast athugið að bið eftir ADHD skimunum nú er um tveir mánuðir.

Endurmat

Við tökum að okkur endurmat á ADHD greiningum. Endurmats er m.a. þörf þegar fólk hefur ekki verið á meðferð í fimm ár eða lengur og þegar fólk flyst til landsins með greiningu erlendis frá.

Ef endurmat hjá okkur leiðir til staðfestrar ADHD greiningar bjóðum við upp á meðferð við röskuninni, þ.m.t. lyfjameðferðar.

Til þess að koma til okkar í endurmat á eldri ADHD greiningu þarf tilvísun frá heimilislækni.

Meðhöndlun

Meðhöndlun ADHD er samspil af lyfjum annars vegar og öðrum úrræðum hins vegar. Önnur úrræði lúta mikið að svefni, mataræði, skipulagi o.m.fl., auk sérhæfðari stuðnings.

Við rekum hjúkrunarstýrða ADHD móttöku, sem m.a. stýrir lyfjagjöf við ADHD með stuðningi geðlæknis.

Til þess að koma til okkar í ADHD meðhöndlun þarf tilvísun frá heimilislækni, nema við höfum gert upphaflegu greininguna.