Upplýsingar fyrir fagfólk
Hverja tökum við að okkur
Per mentis sérhæfir sig annars vegar í lyndisröskunum, s.s. endurkomandi þunglyndi, geðhvarfasýki (bipolar disorder) og hringlyndi (cyclothymia); og hins vegar í taugaþroskaröskunum (ADHD, einhverfa o.s.frv.).
Við tökum einnig að okkur almennar geðlækningar, en ekki mál þar sem fíknisjúkdómar, trauma eða átraskanir eru aðalvandinn – mega þó vera aukavandi með öðrum aðalvanda. Við höfum takmarkaða aðstöðu til þess að sinna flóknari geðrofssjúkdómum og erfiðari persónuleikaröskunum, en höfum tekið að okkur léttari tilfelli innan þeirra flokka, ef þörf er á.
Við tökum að okkur skjólstæðinga frá og með 17. aldursári.
Tilvísanir
Við förum almennt fram á tilvísanir áður en við tökum að okkur nýjan skjólstæðing. Eina undantekningin frá þessu eru ADHD frumgreiningar/uppvinnslur.
Ástæða þess er að við þurfum upplýsingar til þess að forgangsraða erindinu og beina því rétta leið og til rétts fagaðila innanhúss. Stundum förum við fram á tilvísun jafnvel eftir að við höfum ákveðið að taka einhvern að okkur. Ástæða þess er að við viljum fá þann bakgrunn sem heilsugæslan og heimilislæknirinn sjálfur hefur um fólk, sem miðpunktur heilbrigðiskerfisins. Ef ekki er mikið til um viðkomandi hjá heilsugæslunni eru það í sjálfu sér líka góðar upplýsingar fyrir okkur.
Við tökum gjarnan við pro forma tilvísunum fyrir skjólstæðinga undir 18 ára svo þeir geti notið fullrar greiðsluþátttöku hins opinbera í þjónustunni.
Við viljum allra, allrahelst fá tilvísanir í gegnum Heklunetið, þ.e.a.s. rafræna tilvísun á viðkomandi eyðublaði úr sjúkraskrárkerfi eins og PMO eða Sögu. Ef það er ekki mögulegt er hægt að senda okkur þær í gegnum Signet Transfer.
Til þrautavara er hægt að senda okkur tilvísun í pappírsbréfi; Per mentis slf., Síðumúla 23, 108 Reykjavík.
Vinsamlegast athugið að við tökum ekki við bréfapósti sem við þurfum að sækja á pósthús. Ef þið sendið tilvísanir með ábyrgðarpósti er því mikilvægt að þið veljið að bréfið sé afhent viðtakanda, ekki bara sent á pósthús og viðtakandi sækir.
Verklag / samskipti
Verkaskipting
Frá og með fyrsta viðtali við skjólstæðing til og með útskriftarviðtali (og læknabréfi til heilsugæslu) tökum við að okkur alla þjónustu við geðræn vandamál hans. Það þýðir alla greiningarvinnu, ákvarðanir um lyfjameðferð, lyfseðla, vottorð o.s.frv. Skjólstæðingar hafa afar greiðan aðgang að okkur og það er engin ástæða til þess að þeir leiti annað með þessa hluti. Að dreifa þjónustunni getur leitt til margvíslegra vandræða og því mikilvægt að hafa þessa hluti á einni hendi.
Við óskum því eftir því við aðra heilbrigðisstarfsmenn og stofnanir að þeir vísi á okkur ef skjólstæðingar okkar óska eftir lyfseðlum, vottorðum eða öðru tengdu geðrænum vandamálum.
Ef okkar skjólstæðingar leita annað brátt, t.d. á læknavakt eða bráðamóttöku geðsviðs, óskum við eftir því að aðeins sé gripið til bráðra aðgerða og síðan haft samband við okkur. Við getum langoftast boðið bráðaeftirfylgd innan fárra daga. Sama á við innlagnir, ef okkar skjólstæðingar leggjast inn förum við fram á að ekki séu gerðar meiriháttar breytingar á lyfjagjöf eða annarri meðferð án samráðs við okkur, eftirfylgd sé vísað á okkur og að við fáum læknabréf við útskrift.
Ef skjólstæðingur okkar velur að fara í aðra geðþjónustu, t.d. ef honum er vísað á ÞOK teymi LSH, geðheilsuteymi HH eða annað, viljum við gjarnan fá læknabréf um það.
Samskipti við aðra heilbrigðisstarfsmenn
Við leggjum mikla áherslu á góð samskipti við aðra heilbrigðisstarfsmenn. Hægt er að skilja eftir skilaboð hjá móttökuriturum í síma 583 3500 og við hringjum til baka svo fljótt sem auðið er, langoftast samdægurs. Einnig er hægt að senda tölvupóst á [email protected]. Við tökum við skilaboðum í Heilsugátt, en getum ekki lofað alveg sama svartíma þar.
Það er sjálfsagt að hafa samband við okkur ef spurningar vakna, sérstaklega um sameiginlega skjólstæðinga, eða ef þið viljið koma til okkar upplýsingum.
Hvað gerum við í lyndisröskunum
Við tökum að okkur greiningu og meðferð allra lyndisraskanna, þar á meðal flóknari meðferðir á borð við litíummeðferðir. Við rekum öfluga lithíummóttöku þar sem skjólstæðingar eru kallaðir inn á þriggja mánaða fresti í blóðprufur og fylgt eftir reglulega. Við veitum einnig meðferð með reglulegum geðrofslyfjum í forðasprautum í þeim tilfellum sem það á við.
Hvað gerum við í taugaþroskaröskunum
Við tökum að okkur fulla greiningu og meðferð á ADHD. Við tökum einnig að okkur endurmat á eldri greiningum og endurinnleiðingu á meðferð. Í slíkum tilfellum er ófrávíkjanlegt skilyrði að ADHD greining hafi verið sett af geðlækni, barna- og unglingageðlækni eða barnalækni sem sérþekkingu á ADHD. Ef verkefnastaða leyfir tökum við að okkur læknishluta ADHD greiningar þegar sálfræðihlutinn hefur verið unninn annars staðar. Við setjum þó það skilyrði að sálfræðimatið sé vel unnið, gert af sálfræðingi með sögu um góð vinnubrögð, ekki eldra en tveggja ára og að aðstæður í lífi skjólstæðingsins nú séu sambærilegar við aðstæðurnar þegar sálfræðimatið var unnið.
Við getum því miður ekki tekið að okkur greiningar á einhverfu. Við getum skimað, en ekki formlega greint. Við tökum hins vegar að okkur mál þar sem einhverfir einstaklingar hafa ama af færniskerðingu tengdri einhverfu, ef við teljum líklegt að við höfum eitthvað fram að færa. Mál eru metin hvert fyrir sig og það er ekki alltaf ófrávíkjanlegt skilyrði að formleg greining á einhverfu hafi verið gerð.
Þegar við metum þær greiningar sem á einhverfu sem liggja fyrir tökum við aðeins gildar greiningar sem settar hafa verið af geðlækni, barna- og unglingageðlækni eða barnalækni með sérþekkingu á taugaþroskaröskunum, helst í kjölfar greiningarferlis í teymi. Sálfræðimat er hjálplegt, ef það hefur verið gert, en önnur möt, t.d. frá einhverfuráðgjöfum, þroskaþjálfum, sérkennurum o.s.frv. eru ekki áreiðanleg ein og sér.
Útskriftir
Við útskrift frá okkur er skjólstæðingi skýrt frá því að nú endi meðferð og eftirlit hjá okkur. Almennt er viðkomandi þá líka skýrt frá því hver sé meiningin að taki við. Lyfseðlar eru almennt gerðir til næstu sex mánaða og læknabréf með samantekt úr greiningu og meðferð sent til næsta meðferðaraðila, yfirleitt heilsugæslu, með ósk um að hann taki við málinu. Ef umræddur meðferðaraðili getur ekki tekið við málinu þurfum við að fá svar þess efnis sem allra fyrst svo við getum gert ráðstafanir og svo skjólstæðingurinn hangi ekki í lausu lofti milli okkar.
Við útskrift lýkur meðferðarsambandi okkar við skjólstæðinginn. Við erum boðin og búin til skrafs og ráðagerða við nýjan meðferðaraðila, en bjóðum ekki lengur upp á ráðgjöf, lyfseðlaendurnýjanir eða aðra þjónustu við viðkomandi skjólstæðing.
Ef til þess kæmi að þörf þætti á að við kæmum inn í málið að nýju þyrfti nýja tilvísun. Vegna fjöldra aðkallandi nýrra mála sem okkur berast getum við ekki tryggt að við tökum við málum, jafnvel þó að viðkomandi skjólstæðingur hafi verið hjá okkur áður.
